Wednesday 10 September 2014

Súkkulaði & Bláberja cupcake með Ananaskremi

September mættur og eflaust margir sem fara í berjamó. Það er því miður eitthvað lítið um bláber hérna á suðvestur horninu en mamma er á leiðinni Norður og ætlar að týna í fyrstikistuna. Ég átti frosin ber inní skáp og ákvað að prufa nýja uppskrift, hún kom skemmtilega á óvart. Haust kaka með sumarlegu kremi.


Ég ætla líka að kynna ykkur fyrir dóttur minni, hún heitir Kitchenaid, hún er hrímhvít með mattri glerskál og við Bjarki fengum hana í brúðargjöf, hversu ótrúlega falleg er hún???




Í kökuna fer eftirfarandi:
- 1/4 bolli kakó
- 1/4 bolli soðið vatn
- 1 bolli hveiti
- 1/2 tsk matarsódi
- 1/2 tsk lyftiduft
- 113 gr smjör
- 1 bolli sykur
- 2 egg
- vanilludropar
- 1/2 bolli mjólk
- 1 bolli bláber (fersk eða frosin)


AÐFERÐ
- Soðið vatn og kakó sett saman í skál og hrært þar til það eru engir kekkir

- Sykur og smjör hrært saman þar til það er rétt og ljóst
- hveiti, lyftiduft og matarsódi hrært saman í sér skál
- Þegar að smjör og sykurblandan er orðin ljós og aðeins "fluffy" er eggjum bætt við einu í einu, þá kakóblöndunni og vanilludropum
- Þá er hveitiblöndunni og mjólkinni hrært saman við
- Ég velti svo bláberjunum uppúr hveiti og hrærði þeim svo saman við herlegheitin.

Kökurnar bakaði ég í 175°c heitum ofni í 20 mínútur en það fer eftir ofnum.


Ég útbjó líka þurrkaðan ananas til að nota sem skraut

Það var lítið mál, ég skar hann eins þunnt og ég gat, setti hann í cupcake form og inní 200°c heitann ofn. Hann var líklegast inni í 15 mínútur, þegar að ég tók hann út setti ég hann á eldhúsbréf og lét hann þorna.

Ég skar svo restina af ananasnum og setti í blandarann

Þessa græju fengum við líka í brúðargjöf og hún er dáááásamleg

Ég hakkaði ananasinn og notaði svo nælonsokk til að sigta safann frá, geymdi hann í skál og útbjó kremið. Í það fór

- 100 gr smjör
- um 200 gr af flórsykri en það fer eftir þykkinni á kreminu
- 50 ml af hreinum ananas safa (þetta fer líka eftir þykkt og smekk)

Þetta fór allt saman í hrærivélina og ég hrærði þetta saman í nokkrar mínútur eða þar til að kremið varð mjög létt og ljóst.

Kökunum var svo raðað á þennan fallega kökustand sem við fengum einnig í brúðargjöf (já við fengum óteljandi fallega hluti)

Mæli með þessum





No comments:

Post a Comment