Sunday 8 January 2012

Indversk veisla

Það var maraþon eldamennska hjá okkur Mömmu og Brilla á Burgemeester í gær. Eyddum dágóðum part af deginum (öllum deginum) í eldhúsinu og buðum svo uppá eðal indverska Þrettánda veislu (er ekki annars þrettándinn haldinn hátíðlega 7.jan á Indlandi?)

Boðið var uppá samtals 10 uppskriftir og þó ég segi sjálf frá þá voru þær mjög góðar. Þetta eru allt frekar stórar uppskriftir. Það voru 7 fullorðnir og 2 börn í mat og við pössum alltaf uppá að elda það mikið að við getum borðað þetta í tvö daga (flest allt er nefninlega ekki síðra daginn eftir).
Þetta verður líklegast mitt lengsta blogg hingað til en ég vona að þið hafið gagn og gaman af

Frumburðurinn búin að setja á sig svuntu með íslenska skjaldamerkinu og klár í eldamennskuna

Brilli tók Den Haag djamm á föstudaginn og var heilsan eftir því á laugardeginum. Hún svaf af sér mest alla eldamennsku en mætti fersk í mojito gerð um fimm leytið. Brilli klikkar aldrei


Tikka Masala

3 hvítlauks rif
2 rauðlaukar
3 papríkur (allir litir)
3 tómatar
2-3 cm engiferrót
1/2 rauður chilli pipar
1 kg kjúklingabringur
250 ml Tikka Masala Indian Curry paste
400 ml mjólk
200 ml hrein jógúrt

1. Skera niður allt grænmetið og kjúklinginn í bita (skárum hverja bringu í sirca 10 bita)
2. chilli, hvítlaukur og rauðlaukur steiktur uppúr olíu á wok pönnu (eða í potti) þangað til að laukurinn varð mjúkur
3. Restinni af grænmetinu bætt útí ásamt dassi af soja sósu. Látið malla í sirca 5 mínútur
4. Kjúklingabitum bætt við og látið malla þar til kjúklingurinn hefur lokast
5. Tikka Masala paste blandað saman við
6. Mjólk bætt útí og allt saman látið malla í 15 mínútur
7. Hreint júgúrt sett útí og látið malla í 5 mínútur
8. Skreytt með ferskum kóríander áður en þetta er borið fram

Svona leit grænmetið út skorið og svo steikt
























Gúrme kjúklingaréttur sem er alls ekki verri daginn eftir


Indverskar kjötbollur

Mamma og Dísa gerðu Indverskar kjötbollur daginn áður og ég get hiklaust mælt með þeim. Þessi uppskrift er fyrir 1.kg af hakki og það eru sirca 40 bollur í golfkúlu stærð.

1 kg hakk
2 stórir rauðlaukar
3 hvítlauks rif
1/2 rauður chilli pipar
1 lúka ferskt kóríander
2 cm engiferrót (röspuð)
2 egg
1dl hot tómatssósa
4 grófar brauðsneiðar
2 tsk karrý
1 tsk garam masala
1 tsk kóríander duft
1 tsk papríku krydd
1 tsk turmeric
3 tsk cumin
salt og pipar eftir smekk

1. Laukur, hvítlaukur, chilli, kóríander og engifer sett í mixer og allt maukað
2. Brauðsneiðar (betra að hafa þær þurkaðar) settar í blandara
3. Öllu hráefni blandað í stóra skál og mixað mjög vel saman með höndunum
4. Bollur mótaðar (golfkúlustærð)
5. Settar inní ofn á bökunarpappír í 20 mínútur við 200°c



Kókos/Hnetu sósa
Þessa sósu höfum við alltaf með kjötbollunum og hún vekur alltaf lukku

1 1/2 msk karrýmauk (red curry paste)
2-3 cm engiferrót (röspuð)
7 tómatar (skornir í teninga)
1 dós kókosmjólk
3 tsk púðursykur
1 dl cashew hnetur (saxaðar með töfrasprota)

1. Karrýmauk og engiferrót hitað á pönnu í sirca 2 mínútur
2. Tómötum bætt við og látið malla í sirca 4 mínútur
3. Hella kókosmjólk útí og blandan er látin sjóða í 5 mínútur (hræra reglulega í)
4. Bæta kjötbollum útí og sjóða í 15-20 mín
5. Púðursykri og hnetum er svo bætt við í lokin og hrært vel í

Indversk ýsa

800 gr ýsa
1 tsk chilli krydd
1/2 tsk pipar
1/2 tsk salt
3 tsk turmeric
1 tsk karrý
2 tsk kóríander duft
3 msk ferkskur kóríander (saxað)
1 1/2 bolli Gram Flour
1 rautt chilli (saxað)
1 1/2 bolli vatn
3 msk brauðmylnsa (sirca 2 brauðsneiðar)

1. Skera fisk í bita og nudda honum uppúr turmeric kryddi og salti. Láta marinerast í 20 mínútur
2. Setja restina af hráefninu í skál og hræra vel. Þá á þetta að vera aðeins þynnra en orly deig. Gætuð þurft örlítið meira Gram Flour eða vatn.
3. Djúpsteikið í sirca 4-5 mínútur og leggið á eldhúspappír

Með fiskinum bárum við delicious mangó sósu sem við prufuðum í fyrsta skipti og hún verður örugglega prófuð aftur 


Mangó sósa
2 msk safi úr lime
2 hvítlauks rif
1 þroskað mangó
1 dl hrein jógúrt
1 tsk rifinn engiferrót

1. Allt saman sett í mixer og blandað vel
2. Til að þykkja sósuna, stappa saman við einni dós af sýrðum rjóma

Kartöflurnar hennar Svöbbu
Þessa uppskrift fékk mamma frá Svöbbu vinkonu sinni fyrir 12 árum og ég hef ekki tölu á hversu oft hún hefur verið búin til síðan þá. Einföld og ógeðslega góð.

500 gr kartöflur (forsoðnar) eða skornar í teninga
5 tsk karrý
300 ml kotasæla
3 msk sweet mango chutney

1. Setja olíu á pönnu og bæta karrýinu við, blanda vel
2. Steikja kartöflur uppúr olíunni þar til þær verða stökkar að utan
3. kotasælu og mango chutney blandað saman í eldfast mót
4. Kartöflunum blandað saman við
5. Hitað í ofni á 180°c í sirca 20 mín

Við prufuðum að gera kartöflu klatta í fyrsta skipti og þeir heppnuðust mjög vel. 

Aloo Masala klattar ala Burgemeester


500 gr kartöflur
1 rauðlaukur (mjög smátt skorinn)
1 lúka ferskur kóríander (saxaður)
1 tsk salt, 1 tsk pipar
1/2 bolli sýrður rjómi 
2 hvítlauks rif (pressuð)
1/2 tsk red curry paste
3 tsk hveiti
1 tsk kóríander duft
1 tsk karrý
sesamfræ

1. Sjóða kartöflur, kæla og mauka
2. Hræra saman sýrðan rjóma, red curry paste og hvítlauk og setja afsíðis
3. Blanda öllu hráefni saman í skál ásamt sýrða rjóma blöndunni og hræra vel saman
4. Búa til rúllu úr deiginu og skera í sirca 10-12 bita
5. Móta klatta úr hverjum bita og velta uppúr sesamfræjum
6. Steikja klattana á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið
7. Setja nokkra dropa af sweet mango chutney á hvern bita áður en borið er fram

Hnetu salsa
Þetta salsa/salat er ótrúlega ferskt og passar vel með öllum réttunum.


100 gr saltaðar cashew hnetur
125 gr saltaðar jarðhnetur
1 saxaður rauðlaukur
1 stór saxaður tómatur
1/2 rautt chilli, saxað
2 msk smátt saxað ferskt kóríander
safi úr tæplega 1/2 sítrónu
3 msk sweet mango chutney
salt


Allt sett í skál og blandað vel saman.

Fyllt egg
Þessi réttur er algjörlega ómissandi ef þú ætlar að halda indverska veislu.


10 harðsoðin, köld egg
2 msk majones
2 msk sweet mango chutney
1/2 tsk dion sinnep
1 tsk karrý
salt og pipar eftir smekk
Rauð papríka, söxuð
Möndlur, saxaðar

1. Harðsoðnu eggin skorin til helminga og rauðan tekin úr og sett í skál
2. Raða hvítunni í fat/bakka
3. Hræra saman restinni af hráefninu með töfrasprota eða í blandara.
4. Krydda með salti og pipar eftir smekk
5. Eggin fyllt með blöndunni, rúmlega 1 tsk í hvert egg
6. Rauðu papríkunni og möndlunum stráð yfir

Heimagert Naan brauð með hvítlauk og kóríander
Þessi uppskrift gerir 8 naan brauð.


500 gr hveiti
3 tsk sykur
2 tsk salt
1 tsk lyftiduft
220 ml mjólk
4 msk olía
1 lúka ferskur kóríander
2 hvítlauksrif (söxuð)

1. Þurrefnin siktuð í skál
2. Mjólkin og olían hrærð saman
3. Blanda saman þurrefnum og vökvanum og hræra
4. Gætir þurft að bæta við meira hveiti til að fá gott deig
5.Hnoðar deigið
6. Deigið sett í skál með volgu viskustykki yfir og látið bíða í 20 mín
7. Gerið pylsu úr deiginu og skiptið því í 8 bita
8. Mótar brauðin og setur þau á bökunarpappír
9. Hitar brauðin í grill ofni (250°c), 5 mínútur á hvorri hlið 
10. Blandar saman 4 msk af olíu, hvítlauknum og kóriandernum (betra að láta standa í smá tíma)
11. Penslar brauðin þegar að þau koma úr ofninum með olíunni

Raita Sósa
Raita sósan fullkomnar svo veisluna og er lang best útá grjónin.

4 dl hrein jógúrt
1/2 gúrka (mjög smátt skorin)
1 rauðlaukur (mjög smátt skorin)
cayenne pipar á hnífsoddi
1 msk sykur

Öllu blandað í skál og gott að láta hana standa í kæli í nokkra tíma áður en hún er borin fram

Borðið klárt

Góðir gestir í mat

Ásthildur kom svo með frábæran desert. Hvítt súkkulaði múss með grísku jógúrti og jarðaberjum

xox
Emmý







1 comment:

  1. verður þetta ekki örugglega matseðillinn þegar við Guðni komum í heimsókn í mars?

    ReplyDelete