Saturday 22 June 2013

Sumarsalat

Ég skil hreinlega ekki að ég sé ekki búin að skrifa um þetta salat áður. Ég get ekki talið hversu oft ég hef eldað það en uppskriftin er frá vinkonu mömmu. Þetta er eins einfalt og það gerist, fljótlegt og unaðslega gott, sérstaklega þegar að sólin skín

Það skemmir líka ekki hvað salatið er fallegt á litinn


Kjúklingasalat fyrir 3-4

- 3 kjúklingabringur
- 1 rauð papríka
- 1 stórt avókadó
- 1 þroskað mangó
- 1 askja jarðaber
- spínat
- 3-4 msk mango chutney
- 1 poki furuhnetur
- 1 hvítlauksrif
- olía


Aðferð

1. kjúklingabringur eru steiktar á pönnu uppúr olíu og hvítlauk (ef ég er að flýta mér þá sker ég kjúklinginn áður en ég steiki hann)
2. Á meðan að kjúklingurinn steikist þvæ ég spínat (það má vera hvaða salat sem er), sker papríkuna, jarðaberin og mangóið og set í salat skál
3. Þegar að kjúklingurinn er nánast eldaður þá bæti ég 3-4 msk af mango chutney á pönnuna og læt malla í 5 mínútur við lágan hita
4. Þegar að kjúklingurinn er alveg eldaður tek ég bringurnar, sker þær í þunnar sneiðar og læt kólna aðeins.
5. Bæti furuhnetunum við mango chutneyið sem er eftir á pönnunni og hita aðeins
6. Sker niður avókadó í salatið
7. Bæti kjúklingum við salatið og að lokum furuhnetu/mango chutney sósunni

Svo er algjörlega nauðsynlegt að fá sér hvítvínsglas með þessu 

Drekinn fékk barnaútgáfu af salatinu 
Ég steikti smá kjúkling uppúr kókosolíu, skar hann smátt ásamt jarðaberjum, mangói og avókadó. 




xox
Emmý

Monday 17 June 2013

Embla

Ég tók síðbúnar fermingar myndir af Emblu vinkonu minni, birtan var eins og best verður á kosið, módelið einstaklega fallegt og þ.a.l er ég ánægð með útkomuna.







Morten bróðir og Katrín Lára vinkona hans voru líka á staðnum, þau búa hlið við hlið og eru svo yndislega krúttlegir og góðir vinir að það hálfa væri nóg. Ég þurfti náttúrulega að mynda þau líka og þau pósuðu eins og þau hefðu aldrei gert neitt annað...


Hoppusyrpa...




Katrín Lára fékk blóm



xox
Emmý




Monday 10 June 2013

Grillaður lax í sumarbústað

Helginni eyddum við í sumarbústað með góðum vinum, góðum mat, og góðu víni! Ég elska elska elska að fara í sumarbústað, sérstaklega þegar að allt er orðið grænt, lyktin af birkinu er sterk og maður heyrir fuglasöng þegar að maður kemur út á pall á morgnanna. Þessi bústaður var undir Hafnarfjalli en ég hef sjaldan upplifað eins mikið logn á Íslandi, believe it or not.

Anna Lea, Heiður Dís, Ólafur Dór og Marvin Gylfi, stillt og prúð að pósa

Þessi róla vakti mikla lukku

Á laugardeginum grilluðum við lax sem að heppnaðist mjög vel. Við marineruðum laxinn í sítrónupipar, salti,appelsínu og sítrónu berki. Þetta var i fyrsta skipti sem ég smakka svoleiðis og mér fannst bragðið virkilega ferskt og gott.

Með laxinum gerðum við salat, grillaðar kartöflur og einfalda hvítlaukssósu

Hvítlaukssósa
50/50 majones og sýrður rjómi (ég notaði reyndar gríska jógúrt í staðinn fyrir sýrða rjómann og það kom vel út)
1-2 hvítlauksrif
sítrónusafi eftir smekk
salt og pipar
Kjötkraftur

Ég notaði sirca 100ml af majonesi og 100 ml af gríska jógúrtinu og hrærði saman við það 2 hvítlauksrifum, salt og pipar og smá sítrónusafa. Ég leysti svo hálfan tening af kjötkrafti í heitu vatni og bætti því við sósuna. Það er mjög gott að láta hana standa í nokkra tíma inní ískáp áður en  hún er borin fram.


Marvin Gylfi , Hjalti og Þórdís



Það var ótrúlega gott veður þó svo að það væri ekki mikil sól


Rólustemming

Þeir gerast ekki mikið sætari með svona blá augu

Heiður Dís, Fedda og Anna Lea - sætastar

Svo hélt ég smá matarboð í síðustu viku fyrir nokkrar vinkonur, afraksturinn er hægt að sjá í sunnudags mogganum sem kom á laugardaginn :)

xox
Emmý





Thursday 6 June 2013

Barnamatur #2

Nú er drekinn minn rúmlega 8 mánaða og matarvenjurnar aðeins farnar að breytast svo ég ákvað að koma með annað blogg um barnamat. Geri mér ennþá fyllilega grein fyrir því að fólki þykir þetta misskemmtilegt en þetta gæti þó gagnast einhverjum. Fyrra bloggið finnur þú HÉR

Ólafur Dór borðar nánast allt sem ég gef honum og finnst allt gott, ég hef tekið eftir því að nokkrir "réttir" eru í meira uppáhaldi en aðrir og ætla því að deila uppskriftum ef einhverjum skyldi vanta hugmyndir, ég set reyndar ekki inn magn þar sem að það er svo ofboðslega misjafnt hvað börn borða mikið.

Kjúklingur með epli og gulrótum
Þetta er sáraeinfalt, ég steiki á pönnu kjúkling, gulrætur og eplabita. Ég nota stundum ólívu olíu og stundum kaldpressaða kókosolíu. Ég byrja á að steikja gulræturnar í nokkrar mínútur , set svo kjúklinginn og að lokum eplin. Þetta mauka ég svo gróflega eða sker í litla bita

Spaghetti bolognese
Ég steiki á pönnu papríkur, gulrætur, sellerí, tómata og hakk þar til grænmetið fer að verða mjúkt. Sýð spaghetti eða pasta. Mauka þetta svo allt gróflega eða sker í litla bita


Drekinn í action í morgun, þessa dagana er lang skemmtilegast að týna hluti uppúr kassa, láta mig raða þeim aftur ofaní og leikurinn er endurtekinn...


Kjúklingur með perum og kartöflum
Kjúklingurinn hitaður í ofni (ég geri þetta þegar að ég hef gert heilann kjúkling), sýð kartöflur og tek hýðið af peru. Mauka þetta svo allt saman eða sker í litla bita

Skorið grænmeti
Það er ekki lengur vinsælt að fá maukaðann mat eins og fyrir nokkrum mánuðum (nema í morgunmat þá vill hann hafragraut með maukuðum perum og eplum) Núna vill hann helst týna sjálfur uppí sig matinn en honum finnst líka í góðu lagi að fá hann gróflega maukaðann og þá getur hann tuggið bitana. Það er því vinsælt að fá allskonar í bitum eins og t.d. avókadó, tómata, sætar kartöflur, gulrætur, kartöflur, blómkál. Hann fékk líka að naga maísstöngul um daginn og það vakti gífurlega mikla lukku.

Bláberja og banana grautur
Jú honum finnst reyndar tveir grautar góðir, hafragrauturinn og þessi. Ég set botnfylli af vatni í pott, bæti við bláberjum og sýð þar til að berin verða mjúk og vökvinn vel fjólublár. Þá set ég vatnið og berin, banana og smá haframjöl í blandara og mauka vel. Það er samt eins gott að hafa barnið í hlífðarbúnað og helst þann sem að gefur honum grautinn líka...


Fiskur og kartöflur
Þetta er líka í mjög miklu uppáhaldi og hann gæti borðað endalaust af þessu. Ég hef gefið honum lax, steinbít, bleikju og þorsk. Stappa því saman við kartöflur og smjör (augljóslega vel ég eina fiskitegund í einu :).


Þetta barn virðist ætla að stækka hratt. Ég man svo vel þegar að hann fékk þennan bol að gjöf, þá nýfæddur og ég hugsaði með mér"hann passar í þetta þegar að hann fer í skóla" en nei hann smellpassaði þegar að ég setti hann í bolinn í morgun

xox
Emmý