Monday 8 September 2014

Brúðkaupið okkar

Eftir að hafa gert óteljandi statusa á facebook (og langað til að gera 100 í viðbót) ákvað ég að blogga um daginn okkar Bjarka, því svona skemmtilegt þarf jú að ræða.


Við ákváðum daginn í mars (minnir mig) og þá fór undirbúningur á fullt, reyndar fór undirbúningur á fullt þegar að Bjarki bað mín í Ágúst 2013 og ég fjárfesti í fyrstu brúðar-blöðunum, þá var ekki aftur snúið og við ákváðum að 9.ágúst 2014 yrði dagurinn.  Ég var alltaf ákveðin í að gifta mig í kjól Ömmu Em en það þurfti að gera nokkrar minniháttar breytingar á honum, fyrsta verk var því að finna manneskjuna í verkið. Í það fengum við Kristínu Berman sem gerði það alveg einstaklega vel og við Amma ánægðar með útkomuna.

Amma í kjólnum 1967, og svo ég í honum árið 2014 


Eftir mjöööööög langa umhugsun, óteljandi heimsóknir og vangaveltur ákváðum við að halda veisluna á Gamla Kaupfélaginu hérna á Akranesi og boy ó boy ég sé ekki eftir því. Svona þjónusta er vandfundin og frábært að vinna með Gísla að þessu. Maturinn var unaðslegur, drykkir og þjónusta frábær og svo var brúðurinni sýnd gríðarlega mikil þolinmæði í öllu ferlinu sem að gerði þetta allt saman mjög ánægjulegt. Við fengum frjálsar hendur í skreytingarmálum og fengum að hafa salinn bara eins og við vildum. Mamma (yfir-skreytingarmeistari) og ég höfðum náttúrulega miklar hugmyndir um hvernig þetta ætti að líta út og því var mjög gaman að fá að eyða nokkrum dögum í salnum við skreytingar.

Fyrsti höfuðverkurinn sem ég upplifði við þetta ferli var hins vegar gestalistinn. Að sjálfsögðu langar manni til að bjóða öllum að taka þátt í svona skemmtilegum degi en einhverstaðar verður að draga línuna, við Bjarki eigum bæði stórar fjölskyldur og stóra vinahópa svo það var ekki hægt að bjóða öllum og við eyddum ófáum kvöldum í að fínpússa listann því þetta fólk þurfti jú að komast auðveldlega í salinn og svo bauð budgetið ekki alveg uppá 200 manna veislu. Á endanum mættu tæplega 140 manns sem að fór auðveldlega inní salinn.


Þegar að ég fór að sjá fyrir mér hvernig salurinn myndi lýta út vissi ég að hann yrði rómantískur, kertaljós, blúndur og allskonar flottheit. Eftir að hafa pinterestað oftar en einu sinni og oftar en tvisvar yfir okkur ákváðum við (þegar að ég tala um "okkur" í skreytingarmálum, þá á ég að sjálfsögðu við mig og mömmu, Bjarki hafði lítinn áhuga á þessum hluta undirbúningsins) að búa til dúska úr silkipappír og servíettum, nota mikið af seríum, rósum og útbúa svo krukkur. Ég fékk alla fjölskylduna til að safna tómum krukkum og næstu mánuðir snérust full mikið um krukkur. Hversu vel lím fer af krukkum, hvaða efni á að nota til að ná lími af krukkum, hvaða stærðir af krukkum henta best, hvaða lím er best að nota til að skreyta krukkur, en blúndur? Þetta voru allt frasar sem við notuðum mikið en þetta hafðist þó með nokkrum föndurkvöldum. Þar voru gestir hvattir til að gera dúska eða skreyta krukkur. Ef einhver hefur áhuga á að gera þetta mæli ég með að hafa nóg af rauðvíni til að lokka vini og vandamenn á svona föndurkvöld.
Við notuðum blöðrur til að skreyta sviðið, séríur í loftin, krukkur, kerti og rósir á borðin og svo dúska.


Mamma skreytingarmeistari var að sjálfsögðu fengin til að búa til vöndinn minn og ég hefði ekki getað fengið betri manneskju í það (enda er hún toppeintak). Hortensía var fyrsta blómið sem var ákveðið og svo notaði hún rósir og berjalyng með í hann.


Katla á Hárhúsi Kötlu sá um að greiða mér, dásamleg þjónusta sem ég fékk þar og hún eyddi einnig ófáum tímum á pinterest í leit að réttu greiðslunni. Krissý frænka sá um að mála mig og gera mig sæta og þetta var um það bil eina sem ég þurfti að gera á brúðkaupsdaginn. Sitja á hárgreiðslustofunni, drekka freyðivín, borða jarðaber, láta mála mig og hafa það huggulegt. Ég mæli alveg hiiiiiiiklaust með því ef það er í boði.



Við Bjarki erum afskaplega heppin að þekkja tvo snillinga sem sáu um veislustjórn, þær voru báðar að gera þetta í fyrsta skipti en þær stóðu sig frábærlega, þetta gekk allt saman eins og smurð vél, frábær atriði, ræður og skemmtilegheit. Þegar að dagskrá lauk fengum við þau Bjarka Sig, Heiðmar, Viðar, Inga Björn og Ingu Maríu til að taka nokkur lög fyrir gesti. Úr varð eitt skemmtilegasta gítarpartý sem ég hef farið í og svo héldu Ingi Björn og Viðar stuðinu áfram með ógleymanlegu DJ session-i. Ég get ekki mælt nógu mikið með þeim, þau voru frábær.
Ég lét mig náttúrulega ekki vanta

Kristinn Gauti tók svo allan daginn upp fyrir okkur og það er ómetanlegt að eiga þetta allt saman á dvd. Það fór svo lítið fyrir honum að ég sá hann varla, en svo náði hann öllu þessu á filmu og ég græt í hvert skipti sem ég horfi á þetta aftur. Hér er samantektar myndband sem hann gerði fyrir okkur


Þetta var svona það helsta sem mig langaði til að deila með ykkur í kvöld, ég veit að þetta er óþarflega langt en þessi dagur var svo ógleymanlegur og frábær að það er erfitt að skrifa bara fáein orð um hann. Aftur takk takk takk allir sem að gerðu hann svona dásamlegan.




No comments:

Post a Comment