Held það sé tilvalið að blogga um uppskriftina sem birtist í mogganum sl. sunnudag. Ef þig vantar hugmynd af ferskum kvöldverði þá mæli ég með þessu, tekur enga stund og mér fannst þetta æði. Uppskriftin er fyrir 3-4.
Innkaupalistinn fyrir þessa uppskrift er svohljóðandi:
Chilli
Hvítlaukur
Engiferrót
Sítróna
Avókadó
Kál (150 gr, ég nota allt nema iceberg)
Perur
Olía
Dijon sinnep
Hunang
Hvítvínsedik
Granatepli
Möndlur
Parmesan ostur
Kjúklingabringur
1.Það er best að byrja á marineringunni fyrir 2 kjúklingabringur. Í hana fer:
- 1/2 chilli, ég notaði fræin og mér fannst það passlega sterkt, ef þeim er sleppt verður rétturinn mildari.
- 1 hvítlauksrif
- 2 cm engiferrót
- 1 msk olía
Þetta er allt sett í matvinnsluvél og maukað, kjúklingurinn er skorinn í strimla eða teninga og látinn standa inní ísskáp í 2 tíma (má vera lengur, mjög gott ef þetta er gert kvöldið áður).
2. Næst á dagskrá er dressingin, í hana fer:
- 1 lítið hvítlauksrif (mér finnst ekki gott að hafa of mikið hvítlauksbragð og því notaði ég lítið rif, ef þið eruð mikið fyrir hvítlaukinn, eða eruð kvefuð þá má alveg setja meira)
- 1 til 2 tsk hunang (gott að smakka sig til)
- 1 msk hvítvínsedik
- 5 msk ólífuolía
- 1/2 tsk dijon sinnep
- 1 msk ferskur sítrónusafi
- salt og pipar eftir smekk
Þetta er hrært saman og látið vera inní ísskáp þar til salatið er borið fram.
3. Þá eru perurnar afhýddar og soðnar í sirca 20 mínútur með 4 cm engiferbút, þá eru þær látnar kólna, kjarnhreinsaðar og skornar í sneiðar.
4. Næst eru það möndlurnar, ég notaði möndlur með hýði og ristaði þær á pönnu þar til að ég fann góða möndlulykt. þá skar ég þær gróft niður og hafði þær til hliðar þar til ég raðaði upp salatinu.
5. Þá er kjúklingurinn steiktur á pönnu uppúr smá olíu og látinn kólna aðeins.
6. Svo er bara að skera niður avókadó, þvo kálið og raða salatinu fallega uppá disk eða í skál. Ég setti það í þessari röð:
kál, kjúklingur, avókadó, perur, fræ úr einu granatepli, möndlur og að lokum sneiddi ég parmesan ost yfir með ostaskera.
Ég læt fylgja með myndband um hvernig má hreinsa fræin úr granatepli, HÉR getur þú séð það. Svo er nauðsynlegt að bera þetta fram með góðu brauði.
xox
Emmý
No comments:
Post a Comment