Friday, 15 July 2016

Núðlusalat með grilluðum tígrisrækjum

Sumarlegt og ákaflega einfalt salat fyrir tvo.

Þú þarft:



Marinering/sósa

1 dl olía
2 msk sweet chili sósa
2 tsk red curry paste
3 msk soya sósa
2 msk hunang

Aðferð: Öllu hrært vel saman og blöndunni skipt til helminga í skál og í pott, rækjur settar í skálina og látnar marinerast í amk 30 mín (gott að hafa yfir nótt inni í ísskáp) restin fer í lítinn pott, bætt við 1 msk af hunangi og 2 msk kókosmjólk. Sósan látin malla við vægan hita í 5 mín og pipruð eftir smekk, látin kólna og borin fram með salatinu.



Rækjur eru þræddar á grillspjót (muna að bleyta spjótin vel) og grillaðar á háum hita, sirca 1,5 mínúta á hvorri hlið en það fer eftir stærð rækjunar.





Núðlur eru þurrsteiktar á pönnu og restin af hráefnunum skorin eftir smekk. Svo er bara að setja þetta á fallegan disk og njóta!


Tuesday, 23 September 2014

Ananas & Kókos búst

Ég þurfti sárnauðsynlega á einum svona að halda í dag


Í hann fór:
2 lúkur spínat
1/2 lime
1/2 gúrka
1 bolli frosin ananas
1 avókado
1 lúka möndlur
250ml hreint kókosvatn

Ég lét möndlurnar liggja í bleyti (best ef hægt er að láta þær liggja yfir nótt) og byrjaði á að blanda þeim saman við kókosvatnið (lét blandarann ganga í mínútu sirca) svo var restinni bætt við, vökvamagnið er að sjálfsögðu smekksatriði. Ég skreytti hann svo með grófum kókosflögum sem eru í miklu uppáhaldi þessa dagana.

*Þetta fór í tvö 300ml glös*



Wednesday, 10 September 2014

Súkkulaði & Bláberja cupcake með Ananaskremi

September mættur og eflaust margir sem fara í berjamó. Það er því miður eitthvað lítið um bláber hérna á suðvestur horninu en mamma er á leiðinni Norður og ætlar að týna í fyrstikistuna. Ég átti frosin ber inní skáp og ákvað að prufa nýja uppskrift, hún kom skemmtilega á óvart. Haust kaka með sumarlegu kremi.


Ég ætla líka að kynna ykkur fyrir dóttur minni, hún heitir Kitchenaid, hún er hrímhvít með mattri glerskál og við Bjarki fengum hana í brúðargjöf, hversu ótrúlega falleg er hún???




Í kökuna fer eftirfarandi:
- 1/4 bolli kakó
- 1/4 bolli soðið vatn
- 1 bolli hveiti
- 1/2 tsk matarsódi
- 1/2 tsk lyftiduft
- 113 gr smjör
- 1 bolli sykur
- 2 egg
- vanilludropar
- 1/2 bolli mjólk
- 1 bolli bláber (fersk eða frosin)


AÐFERÐ
- Soðið vatn og kakó sett saman í skál og hrært þar til það eru engir kekkir

- Sykur og smjör hrært saman þar til það er rétt og ljóst
- hveiti, lyftiduft og matarsódi hrært saman í sér skál
- Þegar að smjör og sykurblandan er orðin ljós og aðeins "fluffy" er eggjum bætt við einu í einu, þá kakóblöndunni og vanilludropum
- Þá er hveitiblöndunni og mjólkinni hrært saman við
- Ég velti svo bláberjunum uppúr hveiti og hrærði þeim svo saman við herlegheitin.

Kökurnar bakaði ég í 175°c heitum ofni í 20 mínútur en það fer eftir ofnum.


Ég útbjó líka þurrkaðan ananas til að nota sem skraut

Það var lítið mál, ég skar hann eins þunnt og ég gat, setti hann í cupcake form og inní 200°c heitann ofn. Hann var líklegast inni í 15 mínútur, þegar að ég tók hann út setti ég hann á eldhúsbréf og lét hann þorna.

Ég skar svo restina af ananasnum og setti í blandarann

Þessa græju fengum við líka í brúðargjöf og hún er dáááásamleg

Ég hakkaði ananasinn og notaði svo nælonsokk til að sigta safann frá, geymdi hann í skál og útbjó kremið. Í það fór

- 100 gr smjör
- um 200 gr af flórsykri en það fer eftir þykkinni á kreminu
- 50 ml af hreinum ananas safa (þetta fer líka eftir þykkt og smekk)

Þetta fór allt saman í hrærivélina og ég hrærði þetta saman í nokkrar mínútur eða þar til að kremið varð mjög létt og ljóst.

Kökunum var svo raðað á þennan fallega kökustand sem við fengum einnig í brúðargjöf (já við fengum óteljandi fallega hluti)

Mæli með þessum





Monday, 8 September 2014

Brúðkaupið okkar

Eftir að hafa gert óteljandi statusa á facebook (og langað til að gera 100 í viðbót) ákvað ég að blogga um daginn okkar Bjarka, því svona skemmtilegt þarf jú að ræða.


Við ákváðum daginn í mars (minnir mig) og þá fór undirbúningur á fullt, reyndar fór undirbúningur á fullt þegar að Bjarki bað mín í Ágúst 2013 og ég fjárfesti í fyrstu brúðar-blöðunum, þá var ekki aftur snúið og við ákváðum að 9.ágúst 2014 yrði dagurinn.  Ég var alltaf ákveðin í að gifta mig í kjól Ömmu Em en það þurfti að gera nokkrar minniháttar breytingar á honum, fyrsta verk var því að finna manneskjuna í verkið. Í það fengum við Kristínu Berman sem gerði það alveg einstaklega vel og við Amma ánægðar með útkomuna.

Amma í kjólnum 1967, og svo ég í honum árið 2014 


Eftir mjöööööög langa umhugsun, óteljandi heimsóknir og vangaveltur ákváðum við að halda veisluna á Gamla Kaupfélaginu hérna á Akranesi og boy ó boy ég sé ekki eftir því. Svona þjónusta er vandfundin og frábært að vinna með Gísla að þessu. Maturinn var unaðslegur, drykkir og þjónusta frábær og svo var brúðurinni sýnd gríðarlega mikil þolinmæði í öllu ferlinu sem að gerði þetta allt saman mjög ánægjulegt. Við fengum frjálsar hendur í skreytingarmálum og fengum að hafa salinn bara eins og við vildum. Mamma (yfir-skreytingarmeistari) og ég höfðum náttúrulega miklar hugmyndir um hvernig þetta ætti að líta út og því var mjög gaman að fá að eyða nokkrum dögum í salnum við skreytingar.

Fyrsti höfuðverkurinn sem ég upplifði við þetta ferli var hins vegar gestalistinn. Að sjálfsögðu langar manni til að bjóða öllum að taka þátt í svona skemmtilegum degi en einhverstaðar verður að draga línuna, við Bjarki eigum bæði stórar fjölskyldur og stóra vinahópa svo það var ekki hægt að bjóða öllum og við eyddum ófáum kvöldum í að fínpússa listann því þetta fólk þurfti jú að komast auðveldlega í salinn og svo bauð budgetið ekki alveg uppá 200 manna veislu. Á endanum mættu tæplega 140 manns sem að fór auðveldlega inní salinn.


Þegar að ég fór að sjá fyrir mér hvernig salurinn myndi lýta út vissi ég að hann yrði rómantískur, kertaljós, blúndur og allskonar flottheit. Eftir að hafa pinterestað oftar en einu sinni og oftar en tvisvar yfir okkur ákváðum við (þegar að ég tala um "okkur" í skreytingarmálum, þá á ég að sjálfsögðu við mig og mömmu, Bjarki hafði lítinn áhuga á þessum hluta undirbúningsins) að búa til dúska úr silkipappír og servíettum, nota mikið af seríum, rósum og útbúa svo krukkur. Ég fékk alla fjölskylduna til að safna tómum krukkum og næstu mánuðir snérust full mikið um krukkur. Hversu vel lím fer af krukkum, hvaða efni á að nota til að ná lími af krukkum, hvaða stærðir af krukkum henta best, hvaða lím er best að nota til að skreyta krukkur, en blúndur? Þetta voru allt frasar sem við notuðum mikið en þetta hafðist þó með nokkrum föndurkvöldum. Þar voru gestir hvattir til að gera dúska eða skreyta krukkur. Ef einhver hefur áhuga á að gera þetta mæli ég með að hafa nóg af rauðvíni til að lokka vini og vandamenn á svona föndurkvöld.
Við notuðum blöðrur til að skreyta sviðið, séríur í loftin, krukkur, kerti og rósir á borðin og svo dúska.


Mamma skreytingarmeistari var að sjálfsögðu fengin til að búa til vöndinn minn og ég hefði ekki getað fengið betri manneskju í það (enda er hún toppeintak). Hortensía var fyrsta blómið sem var ákveðið og svo notaði hún rósir og berjalyng með í hann.


Katla á Hárhúsi Kötlu sá um að greiða mér, dásamleg þjónusta sem ég fékk þar og hún eyddi einnig ófáum tímum á pinterest í leit að réttu greiðslunni. Krissý frænka sá um að mála mig og gera mig sæta og þetta var um það bil eina sem ég þurfti að gera á brúðkaupsdaginn. Sitja á hárgreiðslustofunni, drekka freyðivín, borða jarðaber, láta mála mig og hafa það huggulegt. Ég mæli alveg hiiiiiiiklaust með því ef það er í boði.



Við Bjarki erum afskaplega heppin að þekkja tvo snillinga sem sáu um veislustjórn, þær voru báðar að gera þetta í fyrsta skipti en þær stóðu sig frábærlega, þetta gekk allt saman eins og smurð vél, frábær atriði, ræður og skemmtilegheit. Þegar að dagskrá lauk fengum við þau Bjarka Sig, Heiðmar, Viðar, Inga Björn og Ingu Maríu til að taka nokkur lög fyrir gesti. Úr varð eitt skemmtilegasta gítarpartý sem ég hef farið í og svo héldu Ingi Björn og Viðar stuðinu áfram með ógleymanlegu DJ session-i. Ég get ekki mælt nógu mikið með þeim, þau voru frábær.
Ég lét mig náttúrulega ekki vanta

Kristinn Gauti tók svo allan daginn upp fyrir okkur og það er ómetanlegt að eiga þetta allt saman á dvd. Það fór svo lítið fyrir honum að ég sá hann varla, en svo náði hann öllu þessu á filmu og ég græt í hvert skipti sem ég horfi á þetta aftur. Hér er samantektar myndband sem hann gerði fyrir okkur


Þetta var svona það helsta sem mig langaði til að deila með ykkur í kvöld, ég veit að þetta er óþarflega langt en þessi dagur var svo ógleymanlegur og frábær að það er erfitt að skrifa bara fáein orð um hann. Aftur takk takk takk allir sem að gerðu hann svona dásamlegan.




Thursday, 4 September 2014

Stjörnumerkjaplattar í nýja cribinu

 Þá er ég gift og komin í nýtt húsnæði, bæði dásamlegt og ég ætla að segja ykkur betur frá brúðkaupinu í sér færslu en mér fannst ég þurfa að deila með ykkur nýja stjörnumerkjaplöttunum sem ég pantaði fyrir fjölskylduna. Vinkona mín hún Þórunn Hulda hannar þá og selur í ýmsum verslunum, facebook síðu hennar finnur þú HÉR ef þú hefur áhuga.


Þegar að ég sá þá fyrst á internetinu vissi ég að ég þyrfti að eignast svona. Í fyrsta lagi hef ég óbilandi áhuga á stjörnumerkjum og í öðru lagi eru þeir svo ofboðslega fallegir. Ég var ekki lengi að láta húsbóndann rífa upp hamar og nagla til að hengja gripina upp en afraksturinn sjáið þið hér fyrir ofan.

Ég ætla að deila með ykkur nokkrum myndum en húsið er hægt og rólega að komast í stand.

Bjarki á efsta, ég miðjuna og drekinn er meyjan. Efstu tveir litirnir eru standard litir en blái er sérpantaður.


Emmý


Tuesday, 22 July 2014

Brúðkaup

Nokkrar myndir sem ég hef tekið úr fallegum
sumar-brúðkaupum


Dröfn og Ómar


Ingunn og Jón Gunnar


Veislan hjá Maren og James

Veislan hjá Maren og James


Friday, 31 January 2014

Föstudags Quesadilla

Ef þú kannt að meta Mexíkanskan mat þá mæli ég með þessari. Einföld, fljótleg og svakalega góð með ísköldum Corona.
Þessi uppskrift ætti að duga fyrir 6 og í hana fer:


  • 1,5 dl hýðishrísgrjón
  • 4 kjúklingabringur
  • 1 chilli
  • 1 poki rifinn ostur
  • 4-5 tómatar
  • 1 blaðlaukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 græn papríka
  • 1 rauðlaukur
  • 12 tortilla pönnukökur
  • 1 dós maís
  • 2 avókadó
  • Guacamole dip mix frá santa maria
  • Organic taco spice mix frá santa maria
  • Hrásykur

Aðferð:
1. Byrja á að sjóða hýðishrísgrjón eftir leiðbeiningum
2. Útbúa salsa sósuna. Í hana fer:
- 4-5 tómatar (ég notaði reyndar eitt box af kirsuberjatómötum í kvöld)
- 1/3 af rauðum chilli
- 1/2 hvítlauksrif (það má nota meira, ég er bara ekki hrifin af of miklu hvítlauksbragði)
- 2cm blaðlaukur (bæði hvíti og græni parturinn, semsagt 1 cm af hvoru)
- 1 tsk hrásykur
Allt sett í blandara eða mixer. Sósan er geymd inní ísskáp þar til hún er borin fram.


3. Skera kjúkling í litla bita og steikja uppúr olíu og Organic taco spice mix kryddinu. Ég prufaði þetta krydd í fyrsta skipti og var mjög hrifin, magnið fer eftir smekk. Kjúklingurinn er svo settur til hliðar.
4. Skera papríku og rauðlauk í strimla, steikja á pönnu uppúr olíu. Pipra og láta malla þar til grænmetið byrjar að mýkjast


5.Hafa pönnukökurnar klárar, raða ost, grjónum, kjúkling, maís, papríku/rauðlauk og smá salsa sósu. Að lokum er ostur settur yfir áður en seinni pönnukakan er sett ofaná.
6. Þetta má bæði setja í grill eða í ofninn. í sirca 5 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað.
7. Á meðan að quesadillað er að hitna er tilvalið að stappa saman tvö avókadó og krydda örlítið með guacamole dip mix. Magnið fer eftir smekk. Svo er gott að hræra aðeins sýrðan rjóma til að bera fram með.





xox
Emmý